Í SNÖRUNNI

Í snörunni fuglinn var fastur
og fóturinn þrútinn og sár.
Hann titraði' af angist og ótta,
í augunum glitruðu tár.

Og tíminn var leiður og langur,
hann langaði frelsi að ná.
Því brúði og börn átti' hann heima
og best var að dvelja þeim hjá.

Hann flaug út að afla þeim fæðu,
og flýtti sér eins og hann gat,
því aumingja ungarnir litlu
þeir æptu og báðu um mat.

Að æti hann leitaði lengi
og lúinn og þreyttur hann var.
Í fjörunni fann það um síðir
og fagnandi settist hann þar.

Hann bita með nefinu náði
og nú vildi' hann flýta sér heim,
en snörurnar fjötruðu fætur,
hann fékk ekki losnað úr þeim.

Hann neytti þess afls sem hann átti,
af engum er heimtandi meir,
en kraftarnir voru svo veikir.
Æ, vesalings fuglinn, hann deyr.

Nei, Fúsi um fjöruna gengur
og fuglinn í lífshættu sér.
Af meðaumkun hjarta hans hrærist,
hann hníf sinn á snöruna ber.

Ó, hugsið hve fuglinn er feginn
er frelsaður leitaði' hann heim.
Og Fúsi með fögnuði starir
á ferðir hans langt út í geim.

En Guð sér af himninum háa
hve hjálpsamur drengurinn er
sem fuglinn úr lífshættu leysti.
Hann letrar því nafn hans hjá sér.

Höf. ókunnur



Sendiš mér gjarnan póst ef žiš finniš villur ķ textunum
en takiš gjarnan fram viš hvaša texta er įtt.