GAMALT ÆVINTÝRI

Það greinir gömul saga
hvar gamall risi bjó.
Hann átti enga niðja
en ótal hallarsali.
Og roðans geislagliti
á gullsins dyngjur sló.

En langt af öllu öðru
hans aldingarður bar.
Þar uxu rauðar rósir
og reynitré og bjarkir.
Og fleygir fuglar sungu
um fegurð lífsins þar.

Það komu eitt sinn krakkar
með kátum ærslabrag
og hentust inn um hliðið
og hoppuðu um garðinn.
Þeir voru' að fagna frelsi
einn fagran sólskinsdag.

Þeir sulgu sumarloftið
og sungu' og hlógu dátt.
En þeim að baki þeyttist
í þykkum mekki rykið
og hvarf í gráum hnyklum
í heiðið fagurblátt.

Þá blés af bræði risinn.
En börnin tóku' á rás.
Og hópinn hláturmilda
hann hrakti' úr garði sínum
af vorsins græna grasi.
Og grindin skall í lás.

Þá flugu burtu fuglar.
Það fauk í sérhvert skjól.
Og blómin brugðu liti.
Og blöðin hrundu' af trjánum.
Og í þeim aldingarði
skein aldrei framar sól.

Texti: Heiðrekur GuðmundssonSendiš mér gjarnan póst ef žiš finniš villur ķ textunum
en takiš gjarnan fram viš hvaša texta er įtt.