LAND MÍNS FÖÐUR

Land míns föður, landið mitt,
laugað bláum straumi,
eilíft vakir auglit þitt
ofar tímans glaumi.
Þetta auglit elskum vér,
ævi vor á jörðu hér
brot af þínu bergi er,
blik af þínum draumi.

Hvíslað var um hulduland
hinst í vestanblænum,
hvítan jökul, svartan sand,
söng í hlíðum grænum.
Ýttu þá á unnarslóð
Austmenn, vermdir frelsisglóð,
fundu ey og urðu þjóð
úti´í gullnum sænum.

Nú skal söngur hjartahlýr
hljóma' af þúsund munnum,
þegar frelsisþeyrinn dýr
þýtur í fjalli og runnum.
Nú skal fögur friðartíð
fánann hefja ár og síð,
varpa nýjum ljóma' á lýð
landsins sem vér unnum.

Hvort sem krýnist þessi þjóð
þyrnum eða rósum,
hennar sögur, hennar ljóð,
hennar líf vér kjósum.
Ein á hörpu íss og báls
aldaslag síns guðamáls
æ hún leiki,ung og frjáls,
undir norðurljósum.

Texti: Jóhannes úr Kötlum
Sendiš mér gjarnan póst ef žiš finniš villur ķ textunum
en takiš gjarnan fram viš hvaša texta er įtt.