SÓLSKRÍKJAN

Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein
sem hljómaði til mín úr dálitlum runni.
Hún sat þar um nætur og söng þar á grein
svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni.
Og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein.
Ó, ef að þú vissir hve mikið hún kunni!

Hún kvað um sitt fjölbreytta fjalldala skraut,
hve frítt er og rólegt að eiga þar heima,
hve mjúkt er í júní í ljósgrænni laut,
hve létt er þar vetrarins hörmum að gleyma
og hvað þá er indælt við ættjarðar skaut
um ástir og vonir að syngja og dreyma.

En fjarri' er nú söngur þinn, sólskríkjan mín
og sumur þíns vinar hin fegurstu liðin.
Hann langar svo oft heim á Þórsmörk til þín,
hann þráir svo ljóðin og vornætur friðinn.
Hann harmar í skógunum hrjósturlönd sín.
Hann hlustar sem gestur á náttgalakliðinn.

Texti: Þorsteinn Erlingsson

 
Sendiš mér gjarnan póst ef žiš finniš villur ķ textunum
en takiš gjarnan fram viš hvaša texta er įtt.