VÍSUR ÍSLENDINGA

Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur,
er gleðin skín á vonarhýrri brá?
Eins og á vori laufi skrýðist lundur,
lifnar og glæðist hugarkætin þá,
og meðan þrúgna gullnu tárin glóa
og guðaveigar lífga sálaryl,
þá er það víst, að bestu blómin gróa
í brjóstum, sem að geta fundið til.

Látum því, vinir, vínið andann hressa,
og vonarstundu köllum þennan dag
og gesti vora biðjum guð að blessa
og best að snúa öllum þeirra hag.
Látum ei sorg né söknuð vínið blanda,
þó senn í vinahópinn komi skörð,
en óskum heilla og heiðurs hverjum landa,
sem heilsar aftur vorri fósturjörð.

Það er svo tæpt að trúa heimsins glaumi,
því táradaggir falla stundum skjótt,
og vinir berast burt á tímans straumi
og blómin fölna á einni hélunótt.
Því er oss best að forðast raup og reiði
og rjúfa hvergi tryggð né vinarkoss;
en ef við sjáum sólskinsblett í heiði,
að setjast allir þar og gleðja oss.

Látum því, vinir! vínið andann hressa,
og vonarstundu köllum þennan dag
og gesti vora biðjum guð að blessa
og best að snúa öllum þeirra hag-
því meðan þrúgna gullnu tárin glóa
og guðaveigar lífga sálaryl,
þá er það víst, að bestu blómin gróa
í brjóstum, sem að geta fundið til.Sendiš mér gjarnan póst ef žiš finniš villur ķ textunum
en takiš gjarnan fram viš hvaša texta er įtt.